David Lynch sótti Ísland heim árið 2009 og þá tók kvikmyndafræðingurinn Sigríður Pétursdóttir viðtal við hann í útvarpsþættinum Kviku. Þau ræddu meðal annars innhverfa íhugun, en David Lynch hefur verið mikill talsmaður hugleiðslu í sinni nálgun. Hann líkti hugmyndum við fiska; Ef þú vilt veiða litla fiska, haltu þig í grunnu vatni. En ef þú vilt ná stórum fiskum þarftu að fara á dýpið, sagði hann meðal annars. Við heyrum brot úr viðtali Sigríðar Pétursdóttur og David Lynch í síðari hluta þáttar og bendum áhugasömum á það að í kvöld, kl 20 á íslenskum tíma, fer fram hóphugleiðsla í nafni afmælisbarnsins um heim allan. Tilvalið tækifæri fyrir lærða og leikna að opna hugann og veiða stóra fiska.
Við heyrum einnig hugleiðingar Magneu Guðmundsdóttir arkitekts um það sem árið 2024 færði okkur í arkitektúr. Þar ber græna vegginn við Álfabakka auðvitað einna hæst en ef það er eitthvað sem við getum lært af því klúðri, segir Magnea, þá er það að mannvirkjagerð snýst ekki bara um að reisa veggi. Það þarf að gera betur og mennskan og umhverfið ættu alltaf að vera samhengið og forsendan.
En við byrjum á því að fara vestur á Granda, í Listval, þar sem Hallgrímur Árnason opnaði um liðna helgi sýninguna Ró og æði. Hallgrímur flutti til Vínar fyrir rúmum áratug til þess að læra arkitektúr. Fyrir röð tilviljana, í bland við ást og kórónaveirufaraldur, starfar hann í dag sem myndlistarmaður og er á kafi í málverkinu. Það má þó segja að hann hafi ekki alveg sagt skilið við arkitektúrinn þvi efniskennd og rými eru honum hugleikin á striganum. Sem og áferð og tími. Hann sér endapunkt verkanna aldrei fyrir og segir tilhlökkunina eftir óvæntri útkomunni vera drifkraftinn að baki sköpuninni.
Umsjón: Halla Harðardóttir og Melkorka Ólafsdóttir