Húsnæði Árnastofnunnar í Árnagarði hefur verið táknmynd eða hulstur utan um efnismenningu handritasafns Árna Magnússonar í rúm 50 ár. Nú hefur stofnunin verið flutt yfir Suðurgötuna og í Eddu en um liðna helgi stóð hópur listamanna, fræðimanna, hönnuða og arkitekta að sýningu í yfirgefnu húsnæði Árnastofnunnar sem þau kölluðu Innviði. Um sýningarstjórn sáu þeir Marteinn Sindri Jónsson og Unnar Örn Auðarson. Við ræðum við Martein Sindra og fleiri þátttakendur í þætti dagsins.
Hópur ungskálda bíður af sér óvenjulegan sumarstorm í sveitasetri við Genfarvatn. Þau drepa tímann með ýmsum óhugnaði en þetta kvöld er eitthvað annað og meira sem ásækir þau en bara skáldskapur. Þannig hefst lýsingin á nýjasta leikverki leikhópsins Marmarabarna, sem kallast Árið án sumars. Við lítum inn í Borgarleikhúsið og kynnum okkur verkið.
Og Gréta Sigríður Einarsdóttir rýnir í Ferðalok eftir Arnald Indriðason.