Í yfirgefnu bílaverkstæði við Skeljanes í Reykjavík hefur hópur sviðslistafólks komið sér fyrir með starfsemi undir yfirskriftinni Tóma rýmið. Þar hafa þau æfingaaðstöðu og rými til þess að prófa áfram og sýna verk á mismunandi stigum í undirbúningsferlinu. Hluti af starfsemi Tóma rýmisins felst í mánaðarlegum tilraunakvöldum, þar sem meðlimir hópsins bera á borð verk í vinnslu eða gera tilraunir í samtali við áhorfendur. Tilraunakvöld janúarmánaðar fer fram í Tóma rýminu í kvöld. Þar verður áhorfendum meðal annars boðið upp á brot úr leikverkinu Skeljar, eftir Magnús Thorlacius, og lifandi tónlistarmyndband úr smiðju systkinana Snæfríðar Sólar og Kormáks Jarls, en gestum býðst líka að skella sér í sánu við sjóinn eftir viðburðinn. Við hittum þau Snæfríði og Magnús og heyrum nánar af starfsemi Tóma rýmisins.
Við ætlum líka að kynna okkur tónlistarkonuna Molly Drake sem var algjörlega óþekkt sem listakona á meðan hún lifði. Molly var bresk millistéttarhúsmóðir í litlu sveitaþorpi nálægt Birmingham þegar hún samdi nær alla sína tónlist. Hún skrifaði ljóð og lagatexta og samdi melódíur á heimilispíanóið, fyrst og fremst fyrir sjálfa sig. Molly datt aldrei í hug að gefa tónlistina sína út en þökk sé eiginmanni hennar eru til upptökur sem hann tók upp á heimili þeirra. Þessar upptökur voru gefnar út löngu eftir dauða Mollyar, þegar sonur hennar, Nick Drake, var orðinn heimsfrægur tónlistarmaður.
Gauti Kristmannsson verður líka með okkur í dag og fjallar að þessu sinni um Vesturlönd í gíslingu - eða harmleik um Mið-Evrópu, tvær ritgerðir tékkneska rithöfundarins Milan Kundera, í þýðingu Friðriks Rafnssonar.
Umsjón: Halla Harðardóttir og Melkorka Ólafsdóttir